The Show Must Go On (3. - 6. júlí)

Blogg sem ég skrifaði þann 6. júlí með fáum breytingum frá því upprunalega:

Gummi sund

Þetta er nú meira ævintýrið þessi ferð! Við höfum það alveg æðislegt hérna, en eins og allir þá eigum við allir okkar slæmu daga. Til að byrja með skal ég segja ykkur það að ég skrifa hér uppkast af þessu bloggi í skrifblokk, sem ég keypti í Walmart, með týpískum 0,7 skrúfblýanti á 90 km/klst hraða. 
Gaui þegar hann las þetta: "Hössi, skrifaru svona hratt?"
Ég sem sagt vaknaði í morgun með Gumma til að fleygja myndefni og fleiru á tölvuna, en yndið virðist hafa dáið í nótt og vill ekki kveikja á sér. Ég vona að ég finni bara einhvern til að laga hana sem fyrst, en þetta er þó ekki the end of the world.

Hoppum samt aðeins aftur í tímann. Ég var búinn að segja ykkur frá Camping site'inu í Philadelphiu og við strákarnir ætluðum að skella okkur í sund þegar við myndum vakna, sem við og gerðum. Það var fínt að komast í sund í þessum hita og ná upp smá ferskleika fyrir áframhaldandi ferðalag. Check out var svo kl. 12:00 og hélt leiðin til miðborgar Philly, þar sem Bandaríkin urðu til í því formi sem við þekkjum það í dag, eða svona næstum því. Það sem stóð mest upp úr þeirri bæjarferð var að sjá The Liberty Bell, sem Bandaríkin sem og mörg önnur ríki heimsins sjá sem tákn um frelsi og sjálfstæði.

Liberty Bell

Þegar þarna var komið við sögu var frábært veður, að mestu heiðskýrt og sól. Það hefur hins vegar einhver verið óþekkur í Philly, stigið á járnsmið eða kannski bara jynx'að sólina, því að á einni klukkustund, á meðan við vorum í litlu mall'i í miðbænum, byrjaði að hellidemba, eins og hellt væri úr fötu eins og sagt er heima á klakanum. Þá hittum við einhvern gæja, algjöran heimspeking, sem sagði okkur frá fellibyl sem væri að skríða yfir austurströndina. Hann var víst svo slæmur að hann kallaði okkur klikkaða þegar við honum að við værum að fara í gegnum Ameríku á RV og værum að leggja af stað til Washington DC. Hann er nú samt kannski ekki sá eini sem kallar okkur klikkaða, en þó af allt annarri ástæðu. Við hins vegar hunsuðum það alveg og hoppuðum upp í taxa hjá Ahmar, Túnisbúa sem var alveg fáránlega spenntur fyrir ferðinni okkar, þó að hann hafi allan túrinn ekki trúað því alveg þegar við sögðum honum frá henni fyrr en hann sá bílinn okkar fyrir utan Walmart. Ahmar: "I am going to be telling everyone about you guys! Im not even joking!!"

Eftir góðan túr með Ahmar lögðum við strax í hann. Leiðin okkar gekk smurt fyrir sig og var það eins og við héldum, kallinn í mall'inu var alltof dramatískur og ýkti hlutina eins og hann gat, eins og margir Ameríkanar fara að. Þessi sami fellibylur var hins vegar sá sami og skreið yfir New York borg og var sá versti sem þar hafði skollið á í háa herrans tíð.

Flugeldar2

Æji hvað með það! Við komum til DC og það fyrsta sem gerðist var að lögregla tók á móti okkur: "Siiir, you can't park this vehicle in the capital." 4th og July var daginn eftir og voru þetta víst einhverjar öryggisráðstafanir. Surprise, surprise.. Við fórum þá rétt fyrir utan DC, til Maryland, og gistum fyrir utan Walmart og McDonald's í fínu hverfi við mörk ríkjanna.

Flugeldar

Að morgni þjóðhátíðardags Bandaríkjanna vöknuðum við svo ferskir og héldum í átt að miðri Washington borg með strætó og lest. Við skoðuðum flest sem hægt var að skoða og kíktum inn í einhver söfn. Hvað fannst okkur standa upp úr? Washington Memorial var mun stærra en maður gerði sér grein fyrir, en á sama tíma var Hvíta húsið mun minna en maður hefði haldið og því viss vonbrigði. En kommon, þetta er enn þá Hvíta húsið... Okkur hefði langað að fara inn í það, en það var ekki möguleiki þar sem að það var bæði 4. júlí og af því að maður þarf að panta heimsókn þangað með minnst 21 dags fyrirvara. Pælið í því hvað þau background check'a mann mikið áður en þeir svara beiðninni..! Washington DC var hins vegar alveg rosalega flott í heildina, geðveikar byggingar og allt mjög fancy. Ég hef líst borginni eins og skjalatösku: Allt mjög fancy og uppstillt einhvern veginn og ekkert meira en það, lítið um skyndibitastaði og þess háttar, ekkert villt eða þannig, æjj ég veit það ekki, ég sé þessa myndbreytingu einhvern veginn fyrir mér. Gaui er sammála mér, hættið að dæma mig.. Toppurinn á þessari frábæru túristaferð okkar hófst hins vegar klukkan 9, 25 mínútna flugeldasýning yfir The Lincoln Memorial. Þvílík sýning sem þetta var! Flugeldar í takti við tónlist í bakgrunn.. yndislegt! 

Washington Mem.

Allt lá hins vegar niður á við þar á eftir. Við tókum lest á sama stað og við komum þar sem að strætó hefði átt að bíða okkar. Svo var hins vegar ekki... hann var hættur að ganga og klukkan orðin hálf 12 á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna. Þá var ekkert annað í stöðunni en að panta okkur bara leigubíl. En vitir menn! Það virtist ómögulegt! Við hringdum í nokkur mismunandi leigubílafyrirtæki en fátt var laust. Það var ekki fyrr en 2 klst. eftir komu okkar á þessa sketchy lestar/strætóstoppistöð sem við náðum að hóa í taxa fyrir einhverja algjöra tilviljun. Hann sætti sig sem betur fer við yfirfarþegar og reddaði okkur að bílnum. Án efa erfiðasta kvöld ferðarinnar hingað til. En það er enn nóg eftir, heill mánuður (þegar þetta er skrifað), af þessu ævintýri.

Myrtle

Jæja, nóg af þessari dramatík! Snúum okkur að deginum í gær (5. júlí)... Alveg frábær dagur. Við hófum keyrslu í átt að Flórída um leið og við vöknuðum. En þar sem að leiðin þangað frá Washington tekur um 15 klst. þá pöntuðum við okkur pláss á camping site'i á Myrtle Beach, sem einhverjir Kanar vildu meina að væri ein stærsta strandlengja landsins. Aksturinn tók 7 tíma og vorum við komnir um kl. 21:00 með einhverjum stopuum á milli. Myrtle Beach Travelers Park var heimilið okkar þessa nóttina og fengum við svæði alveg við ströndina á þessu risastóra svæði. Þar sem að við heyrðum eibhver læti á ströndinni ákváðum við að skemmta okkur almennilega, opnuðum einhverja bjóra og fórum að sósíalæsa á ströndinnni með Pretty-Boy G í fararbroddi. Sjarmur okkar sólskinsdrengjanna dró fólkið að okkur. Það gjörsamlega elskaði hreimana og þá staðreynd að við værum frá Íslandi. Þetta var orðið þannig að fólk var byrjað að tala um okkur á ströndinni! "Are y'all those Icelandic guys these gals were talking about?" Þvílíkt kvöld! Meira segi ég ekki frá því. What happens at Myrtle Beach stays at Myrtle Beach segja þeir víst.  

Sund

Þá er komið að deginum í dag (6. júlí). Við vöknuðum sem sagt og komumst að öllu þess með tölvuna... Oh, ég er svo pirraður yfir henni! (Ekki í dag, hún er komin aftur, WOOHOO) Reyndi að sýna engan pirring til að hafa ekki neikvæð áhrif á strákana. Það er ekkert leiðinlegra en slæmt andrúmsloft á milli okkar þar sem við búum allir á sömu 20 fermetrunum næstu vikurnar. Allavega.. á meðan ég reyndi að komast að því hvað væri að tölvunni fóru Goji og Pretty-Boy G á ströndina. Þá voru einhverjir 2 tímar í check out. Ég hætti að hugsa um þessa blessuðu tölvu eftir einhverjar 10 mínútur, enda asnalegt að kvarta yfir henni í miðju road trip'i um Bandaríkin.. Ég fór þá með Nemma að finna strákana og við fundum þá eftir stutta stund í sundlauginni á Camping site'inu og hoppuðum út í til þeirra. Robbi hélt sér í bílnum.

On the Road

Klukkan 12:00, eftir góða sundferð, óborganlega mikinn hlátur (án þess að vera að ýkja) og kalda sturtu, vorum við hins vegar komnir aftur á veginn og eigum nú 6 klst. akstur eftir til Orlando þar sem við höfum pantað gistingu í tvær nætur á flottu Camping site'i nokkrum mínútum frá Disney World. Við ætlum allavega að komast í að minnsta kosti einn garð á morgun. Veisla!

Ég hendi fljótlega inn bloggi með yfirfærslu á dögunum á milli 6. og dagsins í dag, sem verður alls ekki jafn langt. Sé ykkur þá. Adíós mí amígos.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband