Fram að þessu

Ég er kominn með kvef. Það er eitthvað sem ég hafði aldrei pælt í áður, að fá kvef í 25-30 stig hita. Fyrir utan það hefur margt og mikið gerst á þessum 11 eða 12 dögum sem ég hef ekki rætt um. Ég nenni þó ekki að vera að skrifa of mikið um það. Þið hafið vonandi fylgst með okkur eitthvað á netinu, facebook og instagram, og vitið svona eitthvað. Ég ætla þó að nefna nokkur atriði

Hattar

Við fórum sem sagt til Orlando eftir að ég hafði bloggað í þessa blessuðu bók mína. Sú hefur ekki verið notuð síðan, enda algjört helvíti að vera að skrifa í svona. Við vöknuðum sem sagt daginn eftir, þann 7. júlí og fórum í Epcot í Disney World. Ekki þar sem kastalinn er, þar er lítið að gera fyrir svona sólskinsdrengi eins og okkur. Við skemmtum okkur hins vegar konunglega í Epcot og endaði kvöldið með hinni daglegu flugeldasýningu. Disney hafa sem sagt flugeldasýningu daglega í einhverjum görðum í Orlando og er það að kosta þá 300.000 dollara á DAG. 30 milljónir.. Kannski ekki skrítið þar sem dagspassinn inn í garðana er að kosta í kringum milljón...

Daginn eftir fórum við svo á shopping spree í Florida Mall þar sem við misstum okkur aftur í H&M og svo var Zara þarna, fyrsta Zaran sem við finnum. Ég er Large í öllu úr Zöru. Það kæmi ykkur sem ekki hafið pælt í því eða hafið hugmynd um það að Bandaríkjamenn eru allir rooosalega litlir. Gummi er yfir meðalhæð hérna. I rest my case.

Disney

Eftir Florida Mall lá leiðin til frænku minnar á Cocoa Beach, rétt fyrir utan Orlando. Verður maður ekki að nýta sér svona ferð til þess að "catch'a" smá "upp". Ég held það. Hún, maðurinn hennar, dóttir hennar og barnabörn tóku allavega tók vel á móti okkur. Þau buðu okkur í pizzu, alls ekki slæma, þvoðu fötin hans Róberts og handklæðin okkar og margt fleira. Við fengum svo að hafa bílinn fyrir utan fallega húsið þeirra yfir nóttina þar sem við gistum. 

Ég er ekki að segja frá öllu, margt hefur þó gerst þarna inn á milli, en það verður bara að bíða betri tíma. Við höfum nóg af sögum þegar heim er komið.

Jet Ski

Daginn eftir lá leiðin til Key West. Þar var hápunkturinn 6 klst. bátsferð þar sem við fórum á Jet-ski, snorkluðum, vorum teknir í parasailing og syntum í heitum sjónum, svona án gríns, ég hafði ekki hugmynd um að sjór gæti orðið svona heitur. Fríar veitingar og drykkir voru í boði allan daginn, aaaalls ekki slæmt. Sumir okkar vilja svo meina að þetta hafi verið besti dagur lífs þeirra. Þetta var svo gott.. 

Hooters

Eftir 3 daga í Key West, 2 nætur, fórum við þann 11. júlí til Miami. Í tilefni þess að Guðjón átti afmæli næsta dag fórum við á Hooters, þar sem ljótar stelpur tóku á móti okkur, stelpur með litla rassa og barma, eins og Hooters gellur eru þekktar fyrir... Er það ekki annars?.. Eftir kl. 12 tóku þær svo góðan afmælissöng fyrir Guðjón. Hann var svo sáttur. Og fyrir utan góðan afmælissöng var maturinn alls ekki slæmur. Afmælisdrengurinn sagði borgarann sem hann fékk einn þann besta sem hann hafði smakkað. 

GítarVenetian

12. júlí var svo afmælisdagurinn, dagurinn sem við ætluðum að skella okkur til Bahamas. Við hringdum og vorum í þann mund að fara að borga þegar við áttuðum okkur á leiðinlegum misskilningi, því að við þyrftum að borga um 70.000 kr. beint út í gegnum símann. Ekki séns.. Við eyddum því afmælisdeginum í Miami, fórum í Venetian Pool, fallega sundlaug í Miami, fallegustu sundlaug sem ég hef farið í, fyrir utan kannski Breiðholtslaug. Þetta er ansi jafnt. Um kvöldið skelltum við okkur svo á South Beach, helsta djammstað Miami. Ég ætla ekkert að tala mikið um það kvöld, en ég segi þó frá því að ég snerti í fyrsta sinn á ævinni slöngu. Hún var ekki jafnblaut og ég hélt! Samt alveg kósý.  

Hey já, í Miami fór tölvan mín í viðgerð og ég er kominn með hana aftur. Myndavélar að tæmast og blogg að gerast! Fögnum því!

Ostrur

Á leið okkar úr Flórída þann 13. stoppuðum við í litlum smábæ í Everglades og fundum veitingastað, The Oyster House, sem sýndi úrslitaleik HM. Við horfðum á leikinn með einhverjum Þjóðverjum sem voru duglegir að hrópa einhverjar týpískar þýskar setningar og orð. Ég og Gummi vorum búnir að ákveða fyrir ferðina að ef við fyndum eitthvað ostruhús myndum við láta vaða í einhverjar ostrur og við stóðum við það. Okkur fannst þetta fínt á bragðið en vá, tilfinningin við það að éta þetta, þetta voru eins og lítil skordýr skríðandi upp í kokið á manni. Þvílík klýja! Gaui fékk hins vegar að smakka og sagði að þetta væri mesti viðbjóður sem hann hafði nokkurn tímann smakkað. 

Eftir að hafa gist svo fyrir utan trukkastopp þann 13. júlí lá leiðin okkar áfram norður í átt að Atlanta. Þar skelltum við okkur í Six Flags White Water, sem er sem sagt vatnsrennibrautagarður. Það var helvíti mikið fjör, ekkert til að kvarta yfir þaðan. Við höfðum hins vegar verið í einhverju veseni með bílinn okkar. Meðal annars þá lak bensín úr dælunni á leið í tankinn þegar við fylltum á hann. Í hverri bensínferð hafa því einhverjir hundraðkallar farið í vaskinn. Við hringdum í leigufyritækið í sambandi við þessi vesen og þeir sendu okkur Steven daginn eftir, frábæran gæja úr suðrinu, sem lagaði alla galla bílsins. Í dag er hann heill! Fyrir utan það að Gummi gleymdi vatnsslöngunni á parkinu fyrir utan Atlanta eftir að hafa aftengt hana... Þannig að við þurfum nýja slöngu sem við höfum pantað á Walmart.com

Miami

Nú lá leiðin til Chicago. Á leið hingað frá Atlanta gistum við rétt fyrir utan Louisville í Kentucky, þar sem að aksturinn á milli Atlanta og Chicago er um 10 tímar. Við gistum í Horse Cave, ég er ekki að grínast, það er nafnið á bænum.. Horse Cave.. Bara af því að þeir eru við hliðina á Mammoth Cave National Park, þá þurfa þeir að heita eitthvað Cave. Nice. Horse Cave bauð hins vegar upp á rosalega mikla fegurð en algjört skííítanet. Oh, slæmt. Ég talaði eitthvað við Tómas Val elsku á Skype samt, það virkaði fínt á nákvæmlega bara einu spotti inni í bílnum. Þetta net fór verulega í taugarnar á okkur en við létum það bara gleymast, suðum okkur puslur og steiktum okkur hamborgara. Pulsurnar voru frábærar, borgararnir..? skelfilegir! þvílíkur horbjóður! Ég reyndar drekkti hamborgaranum í majónesi, en þú veist, það var ekki bara það. Þó að borgarinn hafi verið svartur að utan, svooo brunninn, þá virtist hann enn vera hrár að innan. Ojj.

Í gær lá leið okkar svo nær Chicago. Við erum nú staddir, eftir góðan svefn, klukkutíma frá Chicago á fínasta Campi og leggjum af stað inn í borgina núna eftir 10 mínútur. Ég þarf því að drífa þetta af! Fyrirgefið mér að ég hafi engin smáatriði í þessu bloggi. Ég bara nenni ekki að skrifa blogg í fjórar klst. eða eitthvað um alla þessa 11 eða 12 daga. 

Hafið það gott og ég bið með ykkur að sólin láti sjá sig heima. Annars held ég að við höfum bara tekið með okkur sólina og komum með hana til baka þann 4. ágúst.

Adíós!  

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband